Ívar Logi Styrmisson (Kristinn Steinn Traustason)
Samkvæmt heimildum Handkastsins hefur málskotsnefnd HSÍ lagt á borð aganefndar atvik úr leik Aftureldingar og Fram í 5.umferð Olís-deildar karla á fimmtudagskvöldið í síðustu viku. Um er að ræða brot Ívars Loga Styrmissonar leikmanns Fram á Ágústi Inga Óskarssyni leikmanni Aftureldingar. Samkvæmt heimildum Handkastsins barst aganefnd HSÍ sem hittist á þriðjudögum ekki málið fyrir tækatíð frá málskotsnefndinni og því var málið ekki tekið fyrir á fundi aganefndar á þriðjudaginn. Níu mál voru tekin fyrir af aganefnd HSÍ en engin mál bárust frá málskotsnefndinni. Verður þetta að teljast ansi athyglisverð vinnubrögð og hafa spurningar vaknað hvort verklagið í kringum nýja nefnd sem skipuð var í fyrsta skipti í sumar sé nægilega skýrt. Í máli Ívars Loga barst aganefnd málið sex dögum eftir leik samkvæmt heimildum Handkastsins. Hafa aðilar innan handboltahreyfingarinnar verið í sambandi við ritstjórn Handkastsins í vikunni og rætt vinnubrögð málskotsnefndarinnar og verklag hennar. Velta menn því fyrir sér hvort verið sé að opna á þann möguleika að þjálfarar og stjórnarmenn félaga í landinu gætu grafið upp brot sem ekki var tekið á, á sínum tíma og sent á málskotsnefnd HSÍ eða jafnvel sent á Handkastið og beðið Handkastið sem er leiðandi í umfjöllun um íslenskan handbolta um að birta brotin í aðdraganda leikja við það lið sem á við. Ljóst er að Ívar Logi verður í það minnsta löglegur í leik Fram og KA annað kvöld í 6.umferð Olís-deildar karla. Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Í tilefni þess fá allir hlustendur og lesendur Handkastsins 2 fyrir 1 af öllum boozt á Hressbarnum út október. Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.