Carlos Marin Santos - Atli Kristinsson (Sigurður Ástgeirsson)
29 sekúndum fyrir leikslok í bikarleik HK og Selfoss í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins tók Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari HK leikhlé. Það eitt og sér er kannski ekki frásögufærandi nema fyrir þær sakir að staðan í leiknum var 26-23 HK í vil og Selfyssingar gott sem búnir að játa sig sigraða. Í bikarkeppni HSÍ er ekki leikið heima og heiman og því skipti markatalan engu máli í þessu leik. Í kjölfarið fóru allir leikmenn HK til Halldórs Jóhanns þjálfara HK eins og vaninn er í leikhléum og lét hann sennilega vel vönduð orð útúr sér fyrir síðustu 29 sekúndur leiksins. Á sama tíma stóðu leikmenn Selfyssinga enn út á vellinum og biðu eftir að leikhlé-ið myndi klárast. Carlos Martin Santos þjálfari Selfoss hafði engan áhuga að segja eitt né neitt við sína leikmenn en á sama tíma lét Atli Kristinsson aðstoðarþjálfari Selfoss óánægju sína í ljós með því að stara í átt að HK-ingum. Eftir að leiknum lauk hélt Atli áfram að sína óánægju sína, úr útsendingu af leiknum að dæma tók hann fast og þétt í hendina á Halldóri Jóhanni eftir leik og lét vel valin orð falla í garð Halldórs Jóhanns. Atli Kristinsson var dæmdur í eins leiks bann fyrir hegðun sína eftir umræddan leik af aganefnd HSÍ í gær. Atli verður því ekki á hliðarlínunni hjá Selfossi í kvöld þegar liðið fær Stjörnuna í heimsókn í 6.umferð Olís-deildar karla klukkan 18:00. Hægt er að sjá atvikið í myndskeiðinu hér að neðan.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.