Blær Hinriksson ((Leipzig)
Ekkert gengur hjá Blæ Hinrikssyni og félögum í Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni en liðið tapaði með níu mörkum gegn MT Melsungen á útivelli í gærkvöldi, 34-25 í 8.umferð deildarinnar. Leipzig eru á botni deildarinnar eftir átta leiki með einungis eitt stig en liðið gerði jafntefli gegn Göppingen í fjórðu umferðinni. Eini sigurleikur liðsins var gegn Göppingen á tímabilinu í bikarkeppninni. Svo ljóst er að liðinu gengur vel með Göppingen og væru sennilega til í að mæta þeim oftar yfir tímabilið. Yfirburðir Melsungen í leiknum í gærkvöldi voru töluverðir og var liðið 18-9 yfir í hálfleik. Lokatölur 34-25 eins og fyrr segir þar sem Blær Hinriksson var markahæstur í liði Leipzig með átta mörk. Landsliðsmaðurinn, Arnar Freyr Arnarsson skoraði tvö mörk fyrir Melsungen í leiknum en Reynir Þór Stefánsson er enn að jafna sig eftir meiðsli og hefur ekkert leikið með Melsungen frá því hann kom til félagsins frá Fram í sumar. Melsungen eru í 8.sæti deildarinnar með níu stig. Tveir leikir fara fram í þýsku úrvalsdeildinni í dag en klukkan 13:40 mætast tvö efstu lið deildarinnar Flensburg og Kiel í stórleik umferðarinnar. Hannover-Burgdorf og Eisenach mætast síðan klukkan 16:00.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.