Elín Klara er markahæst í sænsku deildinni (KERSTIN JOENSSON / AFP)
Það var sannkallaður Íslendingaslagur í sænsku úrvalsdeildinni í dag þegar Kristianstad tók á móti Sävehof. Annars voru þrjú Íslendingalið í sænsku kvennadeildinni að spila í dag og eitt Íslendingalið í dönsku úrvalsdeildinni átti einnig leik í dag. En aftur að Kristianstad, þar reyndust gestirnir frá Gautaborg aðeins of sterkir fyrir heimamenn og unnu mjög góðan sigur, 30-34 og fyrsta tap Kristianstad staðreynd. Einar Bragi Aðalsteinsson átti fínan leik fyrir heimamenn og skoraði fimm mörk úr átta skotum og fékk eina brottvísun að auki en í liði gestanna átti Birgir Steinn Jónsson erfitt uppdráttar en hann skoraði ekki mark úr fjórum skotum en gaf þó tvær stoðsendingar. Í kvennadeildinni fengu Sävehof skell en eftir að hafa unnið fyrstu þrjá leikina í deildinni mættu þær Höörs HK á útivelli og þær voru einfaldlega of sterkar fyrir gestina, lokatölur urðu 31-22 fyrir Höörs og fyrsta tapið í hús hjá Sävehof. Elín Klara Þorkelsdóttir fór samt sem áður á kostum fyrir gestina og var langbesti leikmaður liðsins en hún skoraði tíu mörk úr þrettán skotum þar af fimm af fimm úr vítum. Meistararnir í Skara töpuðu einnig á útivelli í dag en þær mættu Önnereds, lokatölur urðu 28-23 fyrir heimakonur í Önnereds. Aldís Ásta Heimisdóttir átti vondan dag í liði Skara en hún skoraði eitt mark úr níu skotum og gaf eina stoðsendingu. Lena Margrét Valdimarsdóttir átti fínan leik en hún skoraði úr öllum fjórum skotum sínum. Að lokum unnu Kristianstad góðan útisigur fyrir norðan gegn Boden, 33-36. Berta Rut Harðardóttir skoraði ekki í leiknum í dag. Í Danmörku unnu Ringsted góðan sigur á Sønderjyske og lyftu sér úr fallsæti, lokatölur urðu 36-31. Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði tvö mörk úr fjórum skotum og Ísak Gústafsson skoraði þrjú mörk úr fimm skotum og bætti við tveimur stoðsendingum. Úrslit dagsins: Kristianstad 30-34 Sävehof Höörs HK 31-22 Sävehof Önnereds 28-23 Skara Boden 33-36 Kristianstad Ringsted 36-31 Sønderjyske
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.