Bjarki Bóasson (Sævar Jónasson)
Haukar gerðu góða ferð til Vestmannaeyja í dag og unnu auðveldan sigur á Erlingi Richardssyni og hans mönnum í ÍBV í lokaleik 6.umferðarinnar í Olís-deild karla. Lokatölur 29-39 Haukum í vil. Haukar komust snemma í fjögurra marka forystu í leiknum og létu þá forystu aldrei af hendi. Staðan í hálfleik 13-19 fyrir Haukum. Haukar náðu tíu marka forystu eftir rúmlega 40 mínútna leik í stöðunni 19-29 og Eyjamenn voru heillum horfnir. Síðustu mínútur leiksins fara ekki í sögubækurnar en bæði lið virtust vera að bíða eftir að leiknum myndi ljúka. Elís Þór Aðalsteinsson var markahæstur í liði ÍBV með tíu mörk, þar af sex úr vítum. Andri Erlingsson kom næstur með sjö mörk. Petar Jokanovic var með átta varða bolta eða 22% markvörslu en Morgan Goði Garner klukkaði ekki eitt skot af þeim ellefu sem hann fékk á sig. Daníel Þór Ingason var fjarri góðu gamni í liði ÍBV vegna meiðsla. Hjá Haukum var Birkir Snær Steinsson markahæstur með tíu mörk. Hergeir Grímsson skoraði sjö mörk úr sjö skotum, þar af fimm af vítalínunni og Andri Fannar Elísson skoraði fimm mörk. Magnús Gunnar Karlsson var með 9 varða bolta, eða 30% markvörslu en Aron Rafn Eðvarðsson var fjarverandi í þessum leik af persónulegum ástæðum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.