FramFram (Kristinn Steinn Traustason)
Riðlakeppni Evrópudeildarinnar hefst í dag með sextán leikjum, þar á meðal er leikur Íslands- og bikarmeistara Fram gegn Íslendingaliðinu, Porto frá Portúgal þar sem Þorsteinn Leó Gunnarsson leikur. Hefst leikurinn klukkan 18:45 og fer fram í Úlfarsárdalnum. Leikurinn er sýndur í beinni á Livey. Handkastið heyrði hljóðið í Einari Jónssyni þjálfara Fram sem var að melta hádegismatinn þegar Handkastið sló á þráðinn. Einar er spenntur fyrir kvöldinu og gerir ráð fyrir hörku stemningu í Úlfarsárdalnum. Hann segir að undirbúningur liðsins hafi verið hefðbundinn. ,,Við höfum lagt það í vana okkar undanfarin tímabil að vera ekkert að breyta útaf vananum fyrir einhverja ákveðna leiki og það var engin breyting þar á, fyrir þennan leik," sagði Einar í samtali við Handkastið og segist finna fyrir mikilli spennu og eftirvæntingu í leikmannahópi Fram fyrir kvöldinu. ,,Þetta hefur verið að gerjast í langan tíma og ég veit að leikmenn eru mjög spenntir fyrir þessu. Maður finnur að stærðargráða leiksins er eitthvað sem maður verður var við innan hópsins." Einar Jónsson staðfesti að sami leikmannahópur verði hjá Fram í leiknum í kvöld og lék gegn KA í 6.umferð Olís-deildarinnar síðasta föstudag en KA hafði þar betur 28-32. ,,Við höfum aðeins verið að æfa 7 á 6 sem við erum ekki vanir að spila. Það er kannski það eina sem við höfum breytt í aðdraganda leiksins." Einar hefur takmarkað efni af Porto frá tímabilinu. Hann segir liðið sitt hinsvegar vel undirbúna og klára í átökin. ,,Það er nú ekki mikið að marka það efni sem ég hef fengið frá Portúgal. Þeir spiluðu gegn Sporting á útivelli fyrir þremur vikum, það er sá leikur sem við höfum hvað helst getað notað í okkar undirbúningi. Þar fyrir utan hafa þeir verið að spila gegn mjög slökum andstæðingum." ,,Þeir eru að reyna koma sínum helstu leikmönnum, eins og Þorsteini Leó í stöður sem hann vill komast í. Sama með Linus Persson í hægri skyttunni, þeir eru að reyna einangra fyrir hann og koma honum í maður á mann stöður." ,,Annars er þetta nokkuð hefðbundið, ekkert ósvipað því sem við eigum að þekkja úr deildinni hér heima varðandi leikskipulag. Maður sér að tempó-ið er hátt hjá þeim, þeir reyna að keyra hraða miðju og reyna að refsa hratt. Þeir eru síðan að meðaltali 10-20 kílóum þyngri og 10-15 cm hærri. Þetta eru alvöru stykki sem við erum að mæta og eitthvað sem við erum kannski ekki vanir úr deildinni hér heima," sagði Einar sem segir að helsti munurinn á liðunum sé þessi líkamlegi partur sem er á allt öðrum stað en Framarar eiga að venjast hér heima. Húsið opnar klukkan 17:30 og mun Handkastið hita upp fyrir leikinn í veislusal þeirra Framara fyrir leikinn. Handkastið hvetur áhugafólk um Þjóðaríþróttina að mæta í Úlfarsárdalinn í kvöld og hvetja íslenskan handbolta áfram í Evrópu. Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Í tilefni þess fá allir hlustendur og lesendur Handkastsins 2 fyrir 1 af öllum boozt á Hressbarnum út október. Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.