HSÍ harmar slysið í Eyjum – Afar óheppilegt
MARIUS BECKER / dpa Picture-Alliance via AFP)

Daníel Þór Ingason (MARIUS BECKER / dpa Picture-Alliance via AFP)

Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ harmar þann atburð sem átti sér stað í Vestmannaeyjum um helgina þegar Daníel Þór Ingason leikmaður ÍBV í Olís-deild karla varð fyrir meiðslum við gerð myndbands fyrir samfélagsmiðla HSÍ.

,,Það er þannig að við hjá HSÍ erum að reyna auka ásýnd handboltans og vinna markaðsefni með liðunum. Hluti af því er að fara til félaganna og taka upp samfélagsmiðlaefni með leikmönnum liðanna.”

,,Það sem gerist í Vestmannaeyjum er afar óheppilegt  og í raun óhapp að ræða sem við hörmum,” sagði Róbert Geir Gíslason í samtali við Handkastið.

Hér er hægt að lesa um atvikið sem um ræðir.

Róbert segir að samskipti HSÍ við ÍBV eftir óhappið hafi verið góð.

,,Við höfum tengt leikmanninn við okkar læknateymi hjá landsliðinu. Okkar læknar hafa litið á þær myndir sem komu úr myndatökunni sem hann fór í, um helgina. Eins mun hann gangast undir læknisskoðun hjá okkar læknum,” sagði Róbert sem bætti við að Jón Halldórsson formaður HSÍ hafi einnig verið í samskiptum við Daníel Þór.

,,Mér skilst að Daníel sé á batavegi sem er mjög jákvætt. Það er fyrir öllu að við sjáum Daníel Þór á vellinum aftur sem allra fyrst.”

Í Handboltahöllinni sem sýnd er öll mánudagskvöld í Sjónvarpi Símans velti Hörður Magnússon þáttastjórnandi þáttarins fyrir sér þátt Erlings Richardssonar þjálfara ÍBV í þessu máli. Þar sagði Hörður að Erlingur hafi alfarið skellt skuldinni á HSÍ en velti síðan fyrir sér “Hvað með hann sjálfan?”

Róbert vonast til að þetta atvik hafi ekki áhrif á þátttöku félaganna í gerð markaðsefni á vegum HSÍ í framtíðinni. 

,,Það sem við erum að gera er með hag handboltans að leiðarljósi, til þess að auka ásýnd handboltans, umfjöllunina og til að reyna ná til ungu kynslóðarinnar þegar kemur að handboltanum.”

,,Það er hinsvegar alveg ljóst að við munum skoða hjá okkur hvað við erum að gera. Við munum passa upp á það í framtíðinni að ekki geti hlotist meiðsli við gerð þess markaðsefni sem við erum að búa til með leikmönnum félaganna,” sagði Róbert sem bætti við að í grunninn hafi verið um að ræða algjört óhapp, mjög óheppilegt og leiðinlegt atvik.

ÍBV mætir Aftureldingu í Mosfellsbænum næstkomandi laugardag klukkan 15:00 í 7.umferð Olís-deildar karla. Óvíst er með þátttöku Daníels Þórs í þeim leik en hann missti af leiknum gegn Haukum í 6.umferð deildarinnar, daginn eftir atvikið.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top