Klisch Blumenschein (Oppenwieler /Backnang)
HC Oppenweiler/Backnang sem leikur í þýsku 2. deildinni sagði þjálfara sínum, Stephan Just upp á dögunum eftir slæmt gengi á tímabilinu en liðið er enn í leit af sínum fyrsta sigri í þýsku B-deildinni. Liðið er að leika í B-deildinni í fyrsta sinn í sögu félagsins. Línumaðurinn Tjörvi Týr Gíslason gekk í raðir félagsins í sumar eftir veru sína hjá Bergischer á síðustu leiktíð. Nú hefur félagið tilkynnt tvo aðila sem koma inn sem bráðabirgðaþjálfarar til að byrja með en ákvörðun um framhaldið verður tekin síðar segir í tilkynningu frá félaginu. Það eru þeir Tobias Klisch og Volker Blumenschein sem þjálfa liðið saman og undirbúa það fyrir komandi áskoranir á næstu vikum. ,,Markmiðið er að gefa liðinu nýjan kraft eftir erfiða byrjun tímabilsins og snúa hlutunum við," segir í tilkynningu frá félaginu. Volker Blumenschein er kunnugur staðháttum hjá félaginu en árið 2015 leiddi hann liðið í þriðju deildina í fyrsta skipti sem þjálfari. Árið 2023 tók hann við liðinu á ný á erfiðum tíma og vann þriðju deildarmeistaratitilinn með þeim. Hann þekkir félagið, umhverfi þess og ferla mjög vel. HC Oppenweiler/Backnang mætir TV Großwallstadt á laugardaginn undir stjórn nýs þjálfarateymis.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.