Daníel Þór Ingason (MARIUS BECKER / dpa Picture-Alliance via AFP)
Daníel Þór Ingason verður ekki með ÍBV í stórleik 7.umferðar í Olís-deild karla á morgun gegn Aftureldingu. Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV gerir ekki ráð fyrir því að hann leiki með ÍBV fyrr en að loknu landsleikjahléinu í nóvember. Daníel Þór varð fyrir meiðslum við upptöku á markaðsefni fyrir samfélagsmiðla HSÍ á laugardaginn eins og greint hefur verið frá hér á Handkastinu. Daníel Þór gekkst undir ítarlega skoðun hjá Örnólfi Valdimarssyni bæklunarlækni í gær. Það er Handbolti.is sem segir frá. ,,Liðband sem tengir saman viðbein og hægri öxlina tognaði," sagði Erlingur Birgir Richardsson þjálfari ÍBV við handbolta.is í morgun. Erlingur segir að þar af leiðandi reikni þeir ekki með Daníeli fyrr en eftir landsleikjapásuna sem hefst eftir rúmlega viku. ÍBV leikur gegn Aftureldingu á morgun í Mosfellsbænum og fá síðan KA í heimsókn laugardaginn 25.október. Í kjölfarið tekur við landsleikjapása en fyrsti leikur ÍBV eftir landsleikjapásuna verður gegn ÍR í 10.umferð Olís-deildarinnar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.