Birgir Már Birgisson (Egill Bjarni Friðjónsson)
FH leikur um helgina tvo leiki gegn tyrkneska liðinu Bursa Nilufer Belediyespor í 2.umferð Evrópubikar karla en leikirnir tveir verða leiknir í Tyrklandi. Ferðast liðið til Tyrklands í gær og eru þeir mættir nú til Bursa þar sem leikurinn fer fram. Verða leikirnir báðir klukkan 14:00 á laugardag og sunnudag en einvígið er hluti af 64-liða úrslitum keppninnar. Nilufer er sem stendur í 3.sæti tyrknesku úrvalsdeildarinnar með fjórtán stig eftir átta leiki en liðið tapaði eina leik tímabilsins í síðustu umferð gegn Spor Toto sem er í 2.sæti deildarinnar. FH liðið fer til Tyrklands með sigur á bakinu gegn Selfossi í fyrsta leik 7.umferðarinnar en leikurinn fór fram á mánudaginn síðastliðinn. Í lið FH í þeim leik vantaði bæði Ómar Darra Sigurgeirsson og Einar Örn Sindrason sem báðir glíma við meiðsli. Einar Andri Einarsson aðstoðarþjálfari FH staðfesti í samtali við FH að þeir tveir yrðu eftir heima vegna meiðsla. Ómar Darri meiddist á öxl í deildarleiknum gegn Þór í síðustu viku á meðan Einar Örn meiddist á nára í bikarleik gegn Gróttu í upphafi síðustu viku. Það eru þó jákvæðar fréttir af Birgi Má Birgissyni hægri hornamanni FH-inga sem ferðast með liðinu til Tyrklands en hann hefur ekkert leikið með FH síðan í 3.umferðinni. Meiðsli á mjöðm voru að hrjá Birgi sem virðast vera búinn að jafna sig á meiðslum og verður með FH-ingum í Evrópuleikjunum í Tyrklandi um helgina.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.