Hans Jörgen Ólafsson (Sævar Jónasson)
Hans Jörgen Ólafsson var ekki í leikmannahópi Stjörnunnar í 7.umferð Olís-deildar karla þegar Stjarnan heimsótti Hauka á Ásvelli í gærkvöldi. Haukar unnu leikinn 30-26 en Hans Jörgen átti frábæran leik gegn Selfossi í síðustu umferð. Hann bætist við langan meiðslalista Stjörnunnar sem hafa misst hvern leikmanninn á fætur öðrum í meiðsli síðustu vikur. Hrannar Guðmundsson var spurður út í Hans Jörgen í viðtali við Handkastið eftir tapið gegn Haukum í gær. ,,Hann er að glíma við meiðsli á ökkla og verður eitthvað frá. Ég geri ekki ráð fyrir honum fyrr en eftir landsleikjapásuna,” sagði Hrannar í samtali við Handkastið. Framundan er leikur Stjörnunnar og Aftureldingar í 8.umferð Olís-deildar karla en í kjölfarið tekur við landsleikjapása í deildinni þar sem íslenska landsliðið kemur saman og leikur tvo æfingaleiki gegn Þjóðverjum ytra. Hans Jörgen bætist á meiðslalistann ásamt þeim Adami Thorstensen, Agli Magnússyni, Sveini Andra Sveinssyni, Jóhannesi Björgvin, Rea Barnabas og Tandra Má Konráðssyni. Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Í tilefni þess fá allir hlustendur og lesendur Handkastsins 2 fyrir 1 af öllum boozt á Hressbarnum út október. Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.