Snorri Steinn útilokar ekki að bæta við leikmanni í hópinn
Kristinn Steinn Traustason)

Andri Már Rúnarsson (Kristinn Steinn Traustason)

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari Íslands valdi 17 manna leikmannahóp í landsliðsverkefni í lok október þar sem landsliðið kemur saman í Þýskalandi og leikur þar tvo æfingaleiki gegn Þjóðverjum.

Fara leikirnir fram fimmtudaginn 30. október í PSD Bank Nürnberg Arena og loks sunnudaginn 2. nóvember í SAP Garden München.

Athygli vekur að Snorri Steinn valdi einungis 17 leikmenn í verkefnið þar af þrjá markverði. Alfreð Gíslason þjálfari þýska landsliðsins valdi 18 leikmenn á dögunum í sama verkefni og eru oftar en ekki 18 leikmenn valdir í landsliðsverkefni.

Handkastið spurði Snorra Stein einfaldlega út í þá ákvörðun hans, að hann hafi einungis valið 17 leikmenn í komandi verkefni.

,,Það eru nokkrar ástæður fyrir því en á sama tíma hef ég ekki alveg lokað á það að taka átjánda leikmanninn inn. Þar fyrir utan fannst mér ekkert sem öskraði á mig að það ætti einhver að vera þarna frekar en einhver annar. "

,,Þessir strákar sem eru valdir núna eiga ennþá eftir að spila nokkra leiki áður en við hittumst, mismikið auðvitað en ég ætla að taka stöðuna á þeim um miðja næstu viku og sjá hvort menn séu eitthvað laskaðir og hvort ég þurfi að dreyfa eitthvað álaginu í þessum tveimur leikjum gegn Þjóðverjum," sagði Snorri sem bætti við að það gæti vel verið að hann myndi bæta við einum leikmanni í viðbót.

Andri Már Rúnarsson leikmaður Erlangen og Blær Hinriksson leikmaður Leipzig eru til að mynda nöfn sem gerðu að öllum líkindum tilkall í að vera í landsliðshópnum að þessu sinni. Snorri segir frammistöðu þeirra tveggja í þýsku úrvalsdeildinni ekki hafa verið nægilega góða í upphafi tímabils.

,,Mér hefur bara fundist eitthvað vanta uppá til þess að þeir séu þessi átjándi maður. Allavegana þannig að þeir séu að öskra á það að ég velji þá. Miðað við frammistöðu þeirra núna á tímabilinu. Ég horfi á flesta leiki hjá þessum strákum og valdi þessa sem ég hef valið fram yfir þá. Þetta eru þeir leikir sem ég vill klárlega skoða í þessum glugga. Mér finnst mikilvægt að eyða tíma í það."

Snorri er búinn að teikna upp og ímynda sér hvernig hann sjái fyrir sér hvernig hann ætlar að nýta þetta verkefni eins vel og hægt er fyrir EM í janúar á næsta ári.

,,Mér finnst ég þurfa að sjá Hauk spila á miðjunni hjá okkur. Hann fær risa tækifæri núna í risa glugga. Mér finnst ég þurfa að sjá Þorstein Leó á þessu sviði. Auðvitað er deildin sem hann spilar í, ekki sú besta en hann er að spila í Evrópudeildinni."

,,Ég vil sjá Þorstein fá alvöru mínútur og margar mínútur í svona glugga gegn Þjóðverjum á þeirra heimavelli. Mér finnst engin ástæða að troða inn einhverjum nokkrum mínútum hér og þar," sagði Snorri Steinn í viðtali við Handkastið.

Hægt er að sjá landsliðshópinn hér.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top