Þór (Skapti Hallgrímsson /Akureyri.net)
Það var rosalegur leikur sem fram fór í Höllinni á Akureyri þegar nýliðar Þórs tóku á móti HK í 7.umferð Olís-deildar karla á fimmtudagskvöldið. Bæði lið voru með fjögur stig í neðri hluta deildarinnar fyrir leikinn en HK-ingar mættu vel stemmdir í leikinn og unnu sannfærandi átta marka sigur 32-24. Rætt var um leikinn í nýjasta þætti Handkastsins þar sem Kristinn Björgúlfsson og Stymmi klippari voru á sama máli um að hafa miklar áhyggjur af nýliðum Þórs eftir þennan leik. ,,Niðurstaðan er sú að HK var betri á nánast öllum sviðum, allan leikinn. Sóknarleikur Þórsara var svipaður og hjá kvennalandsliðinu. Þetta var rosalega tilviljunarkennt og mörg mistök og lélegar ákvarðanir," sagði Kristinn Björgúlfsson um leik Þórs og HK. Stymmi klippari bætti við að Þórsarar sakna Hafþórs Vignissonar gríðarlega og tók Kiddi undir þau orð Klipparans. ,,Þegar þú missir leikmann eins og Hafþór og næsti maður er rétthentur, þú ert helvíti fyrirsjáanlegur. Það er erfitt." Stymmi klippari tók þá til máls og segist hafa miklar áhyggjur af liði Þórs. ,,Ég hef verið hár á þeim og hef haft mikla trú á því og spáð þeim sigri í síðustu tveimur heimaleikjum. Það hefur ekki gengið eftir. Mér fannst þetta ógeðslega flatt og andlaust. ,,Ég get ekki trúað öðru en að Daniel Birkelund hafi sett þennan leik sem algjöran úrslitaleik upp á það að þetta er lið sem þeir verða að vinna á Akureyri, ef þeir ætla að eiga möguleika að halda sér frá 11. eða 12. sætinu. Og þeir skíttapa þeim leik." Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Í tilefni þess fá allir hlustendur og lesendur Handkastsins 2 fyrir 1 af öllum boozt á Hressbarnum út október. Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.