Þórir Ingi Þorsteinsson (J.L.Long)
Þórir Ingi Þorsteinsson leikmaður FH meiddist illa í fyrri viðureign FH gegn tyrkneska liðinu Bursa Nilufer í Tyrklandi í dag. Tyrkneska liðið vann átta marka sigur en seinni leikur liðanna fer fram í Tyrklandi á morgun klukkan 14:00. Sigursteinn Arndal þjálfari FH sagði í viðtali við samfélagsmiðla FH eftir leikinn að þetta hafi verið erfiður dagur og erfiður leikur. ,,Þetta var erfiður dagur og erfiður leikur. Margt sem gekk ekki upp hjá okkur. Við missum tökin snemma leiks. Við lendum í gríðarlega áfalli þegar við missum Þóri í ljót meiðsli sem sló okkur kannski,” sagði Sigursteinn Arndal. Það var ljóst að með þessum orðum væri um að ræða slæm tíðindi af Þóri Inga en samkvæmt heimildum Handkastsins meiddist Þórir Ingi illa á hné og við fyrstu athugun eru FH-ingar hræddir um að krossbandið hafi slitnað. Það kemur þó ekki í ljós fyrr en eftir helgi þegar Þórir Ingi kemst undir læknishendur hér á landi. Handkastið sendir batakveðjur á Þóri Inga sem hefur komið gríðarlega vel inn í lið FH í Olís-deildinni á þessu tímabili.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.