Sigursteinn Arndal (Egill Bjarni Friðjónsson)
FH er úr leik í Evrópubikar karla eftir tap gegn tyrkneska liðinu Bursa Nilufer í 64-liða úrslitum keppninnar um helgina. Liðin mættust tvívegis í Tyrklandi um helgina. Í gær vann Bursa Nilufer átta marka sigur og það var því á brattann að sækja fyrir FH-inga í dag sem því miður unnu einungis fimm marka sigur í dag. FH-ingar léku samt sem áður töluvert betri leik í dag heldur en í gær og það var allt annað að sjá liðið. Sigursteinn Arndal þjálfari FH var vonsvikinn að vera dottinn úr leik en á sama tíma ánægður með frammistöðu liðsins í leiknum í dag. ,,Tilfinningin er frekar blönduð. Fyrst og fremst er ég ánægæður með frammistöðuna og svörunina frá því í gær. Við vorum allir ósáttir með frammistöðuna okkar í gær og gerðum hlutina ekki nægilega vel en það var allt annað upp á teningnum í dag," sagði Sigursteinn Arndal í viðtali við samfélagsmiðla FH eftir leikinn í Tyrklandi í dag. ,,Við fórum vel yfir þá hluti sem voru ekki að virka í gær og mér fannst svörunin frábær hjá liðinu." FH-ingar höfðu unnið upp átta marka forskot Tyrkjanna í seinni hálfleik en lokakaflinn var ekki nægilega góður auk þess sem FH-ingarnir voru ekki ánægðir með allar ákvarðanir dómaranna undir lokin. ,,Á sama tíma er þetta svekkelsi því við vorum búnir að koma okkur í þá stöðu að við vorum búnir að vinna upp þessi átta mörk og við vorum komnir í níu marka forskot á tímabili. Við hefðum auðvitað viljað keyra það heim." Framundan er stórleikur í Olís-deild karla næstkomandi fimmtudagskvöld þegar FH og Haukar mætast í 8.umferð deildarinnar. ",,Núna þurfum við að ná þessari helgi úr okkur. Það er mikið að spila tvo leiki á tveimur dögum. Við tökum endurheimt í Krikanum á morgun og síðan hefst undirbúningur fyrir leikinn gegn Haukum." ,,Þetta er bara FH og Haukar og ég trúi ekki öðru en að við fáum alla FH-inga til að fjölmenna. Þetta hafa verið mörg skemmtileg ár í Krikanum undanfarin ár. Mér finnst extra mikilvægt að brýna fyrir fólki að það eru mjög margir efnilegir strákar að koma upp og að fá tækifæri. Þeir eru að taka við stórum hlutverkum í liðinu og ég vil hvetja FH-inga til að flykkja sér á bakvið þessa ungu drengi og vera með allan þann tíma. Því við ætlum okkur auðvitað að halda áfram að búa til gott lið í Kaplakrikanum."
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.