Jökull Blöndal (Egill Bjarni Friðjónsson)
Jökull Blöndal Björnsson hefur framlengt samningi sínum við handknattleiksdeild ÍR til ársins 2028. ÍR tilkynnir þetta á samfélagsmiðlum sínum nú rétt í þessu. Jökull, sem leikur í stöðu vinstri skyttu, er fæddur árið 2007 og hefur þrátt fyrir ungan aldur látið til sín taka í meistaraflokki ÍR undanfarin tvö tímabil. Jökull sem er uppalinn í ÍR hefur verið viðloðin yngri landslið Íslands á undanförnum árum. Hann var í gær valinn í landsliðs æfingahóp U20 ára landsliðsins sem Ágúst Þór Jóhannsson valdi. ,,Hlutverk Jökuls hefur vaxið á núverandi tímabili en hann hefur skorað 36 mörk í fyrstu 7 leikjum Olís deildarinnar. Við ÍR-ingar erum glaðir með framlenginu Jökuls og hlökkum til með að fylgjast með honum taka næstu skref á sínum ferli í Skógarselinu," segir í tilkynningunni frá ÍR. Handkastið sagði frá því fyrr í vetur að Framarar hafi reynt að kaupa Jökul frá ÍR en ÍR-ingar vildu ekki taka þátt í þeim viðræðum og afþökkuðu pent. Þetta eru gríðarlega jákvæðar fréttir fyrir ÍR sem hafa nú fest Jökul hjá félaginu næstu tvö tímabil í það minnsta en liðið er á botni Olís-deildarinnar með einungis eitt stig að loknum sjö umferðum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.