Uros Zorman (Anne-Christine POUJOULAT / AFP)
Sögusagnir hafa lengi gengið um að Uroš Zorman núverandi þjálfari Slovan í Slóveníu og slóvenska landsliðsins gæti tekið við stjórn pólsku risanna í Kielce. Nú þegar framtíð Talant Dujshebaev núverandi þjálfara Kielce er óviss, verða þær vangaveltur enn háværari. Dujshebaev er með samning út þetta tímabil, en enn hefur ekki verið rætt um framlengingu. Samkvæmt heimildum er Dujshebaev eftirsóttur af íþróttastjóra Kiel, Viktor Szylagi, en jafnframt er talið að möguleiki sé á að hann taki við starfi í Katar. Sterk tengsl Zormans við Kielce gætu spilað honum í vil. Hann lék með félaginu í sjö tímabil og varð meðal annars Evrópumeistari með liðinu árið 2016. Einnig starfaði hann um tíma sem aðstoðarþjálfari Dujshebaev hjá Kielce og myndaðist gott samband milli þeirra. Samkvæmt heimildum úr Póllandi er Zorman sem stendur eini kandídatinn sem Kielce lítur til sem hugsanlegan arftaka Dujshebaev, og telja stjórnendur hann hið fullkomna val ef breytingar verða gerðar. Ef Zorman fær og samþykkir tilboð frá Kielce sem margir telja líklegt mun það hafa áhrif á verkefnið hjá Slovan, félaginu sem hann starfar hjá í dag. Slík þróun gæti leitt til umtalsverðra breytinga þar á bæ. Allt ræðst þó af því hvort Dujshebaev ákveður að framlengja samning sinn eða leita á önnur mið. Slovan félagið sem Uros Zorman þjálfar í dag hefur sótt til sín sterka leikmenn sem hafa mikla reynslu og hafa margir verið spenntir fyrir því verkefni sem félagið hefur verið að vinna að, að gera Slovan að samkeppnishæfu liði á evrópskum mælikvarða. Hvort það fari allt í súginn yfirgefi Zorman félagið verður tíminn að leiða í ljós.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.