Fjölgun í Meistaradeildinni og breytingar á Evrópukeppnunum
Ronny HARTMANN / AFP)

Ómar Ingi Magnússon (Ronny HARTMANN / AFP)

Framkvæmdastjórn Handknattleikssambands Evrópu (EHF) samþykkti á fundi sínum í Vínarborg í dag umfangsmiklar breytingar á tveimur stærstu félagsliðakeppnum karla í evrópskum handbolta, Meistaradeildinni (EHF Champions League) og Evrópudeildinni (EHF European League).

Frá og með keppnistímabilinu 2026/27 mun Meistaradeildin fjölga í 24 lið og Evrópudeildin verða leikin með 32 liðum, sem hefja keppni strax í riðlakeppni.

„Endurskipulagning Meistaradeildarinnar og Evrópudeildarinnar er afrakstur ítarlegrar umræðu sem hefur átt sér stað síðustu mánuði með þátttöku helstu hagsmunaaðila í evrópskum handbolta þar á meðal félaga, deilda og handknattleikssambanda. Þetta ferli endurspeglar jafnframt slagorð síðasta þings EHF: 'Next Level. Every Game.',“ sagði Michael Wiederer, forseti EHF, í yfirlýsingu.

Á vormánuðum hélt EHF ráðstefnur fyrir bæði karla- og kvennakeppnir, og var samráði haldið áfram yfir sumarið. Lokadrög bárust svo í síðustu viku á fundi Forum Club Handball, auk funda með félögum, deildum, handknattleikssamböndum og fulltrúum leikmanna í Vín.

Wiederer bætti við: „Gæðin í evrópskum félagsliðum eru það mikil að báðar keppnirnar verða afar samkeppnishæfar, sem eykur aðdráttarafl þeirra fyrir áhorfendur, fjölmiðla og samstarfsaðila og styrkir stöðu þeirra sem vörur á markaði.“

Nýtt fyrirkomulag Meistaradeildar karla

Meistaradeildin mun frá og með tímabilinu 2026/27 hefjast með sex riðlum þar sem fjögur lið leika í hverjum riðli. Leikið verður heima og að heiman í tvöfaldri umferð.

Tvö efstu liðin úr hverjum riðli fara áfram í aðalriðlakeppni (Main Round), þar sem tólf lið verða skipt í tvo sex liða riðla sem leika einnig heima og að heiman.

Fjórir efstu í hvorum aðalriðli komast í átta liða úrslit (quarter-finals), en sigurvegarar þeirra einvígja leika svo til úrslita á EHF FINAL4 í Köln.

Þau lið sem enda í 5. sæti í aðalriðlum halda keppni áfram í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Liðin sem lenda í 3.–4. sæti í upphaflegu riðlakeppninni flytjast yfir í Evrópudeildina og halda keppni áfram þar.

Nýtt fyrirkomulag Evrópudeildar karla

Evrópudeildin verður leikin með 32 liðum sem skiptast í átta riðla með fjórum liðum í hverjum. Engin undankeppni verður leikin – keppnin hefst strax með riðlakeppni.

Tvö efstu lið hvers riðils fara áfram í útsláttarkeppni sem leikin verður heima og að heiman.

Þar bætast við 12 lið sem lentu í 3.–4. sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Sigurvegarar úr fyrstu umferð (14 lið) sameinast tveimur liðum sem lentu í 5. sæti aðalriðla Meistaradeildarinnar og mynda saman 16 liða úrslit Evrópudeildarinnar.

Þaðan heldur keppnin áfram að EHF Final Four, lokahelgi keppninnar þar sem fjögur lið bítast um Evrópudeildartitilinn.

Nánari útfærsla í desember – breytingar á kvennakeppnunum á döfinni

EHF mun ákvarða endanlega skiptingu sæta milli landa í báðum keppnum á fundi framkvæmdastjórnar sambandsins í desember. Þá verður jafnframt unnið að undirbúningi sambærilegra breytinga á félagsliðakeppnum kvenna, sem munu taka gildi 2027/28.

„Markmið okkar var að bæta vöruna án þess að fórna þeim þáttum sem virka vel í núverandi fyrirkomulagi. Við fjölgum liðum, tryggjum að bestu liðin haldi áfram að spila jafnmarga heimaleiki gegn öðrum toppliðum, styttum tímabilið í annasömum vorferli og styrkjum Evrópudeildina með innkomu liða úr Meistaradeildinni,“ sagði Michael Wiederer að lokum.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top