Ívar Logi Styrmisson (Sævar Jónasson)
Fram fékk Elverum frá Noregi í heimsókn í Úlfarsárdalinn í kvöld í 2.umferð D-riðils í Evrópudeildinni í handbolta. Leiknum lauk með 29-35 sigri Elverum en staðan í hálfleik var 19-19. Gestirnir byrjuðu leikinn betur og komust í 4 marka forystu 6-10 og virtust ætla að ganga frá leiknum strax í fyrri hálfleik. Breki Hrafn Árnason kom þá inn í markið hjá Fram og kom þeim aftur inn í leikinn og náði Fram að jafna í 14-14. Staðan í hálfleik var 19-19 en það var þrumufleygur frá Rúnari Kárasyni rétt fyrir hálfleik sem jafnaði leikinn. Fram náði að halda í við norsku deildarmeistaranna framan af síðari hálfleik en líkt og gegn Porto fyrir viku þá vantaði örlítið upp á breiddina hjá Fram til að ná að klára leikinn á því tempói sem liðið spilaði framan af. Elverum reyndust of sterkir á lokakaflanum og urðu lokatölur 29-35 þeim í vil og var Péter Lukács allt í öllu hjá þeim með 12 mörk. Tryggvi Þórisson leikur með Elverum en náði ekki að komast á blað í kvöld. Rúnar Kárason var markahæstur Fram í kvöld með 7 mörk og Breki Hrafn Árnason varði 15 skot. Markaskorun Fram: Rúnar Kárason 7 mörk, Ívar Logi Styrmisson 6, Dagur Fannar Möller 5, Theodór Sigurðsson 5, Eiður Rafn Valsson 4, Torfi Geir Halldórsson 1, Max Emil Stenlund 1. Markvarsla Fram: Breki Hrafn Árnason 15 varin.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.