Janus Daði Smárason (Kristinn Steinn Traustason)
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari Íslands valdi 17 manna leikmannahóp sinn fyrir komandi landsliðsverkefni á föstudaginn. Landsliðið kemur saman í lok október þar sem liðið æfir og leikur þar tvo æfingaleiki gegn Þjóðverjum. Fara leikirnir fram fimmtudaginn 30. október í PSD Bank Nürnberg Arena og loks sunnudaginn 2. nóvember í SAP Garden München. Handkastið hitti Snorra Stein í höfuðstöðvum HSÍ eftir að hópurinn var tilkynntur. Þar var Snorri Steinn spurður út í nýjustu tíðindi af miðjumanninum, Janusi Daða Smárasyni leikmanni Pick Szeged sem meiddist illa á hné á dögunum. Þar sagði Snorri Steinn að staðan á Janusi væri nokkuð góð miðað við allt. Var Snorri spurður að því hvort hann geri ráð fyrir honum á EM í janúar með íslenska landsliðinu og hvort það standi tæpt að hann verði orðinn leikfær fyrir það mót? ,,Ég geri ráð fyrir honum og ég held að þetta sé alls ekki á tæpasta vaði hjá honum. Miðað við það sem ég hef heyrt frá honum og þeim læknum sem hafa skoðað hann frá okkur,” sagði Snorri Steinn í viðtali við Handkastið. ,,Ég er mjög bjartsýnn og reikna með honum á EM. Auðvitað tökum við stöðuna reglulega og þegar nær dregur. Ég er ekkert viss um að hann nái einhverjum leikjum með Pick Szeged fyrir EM. Þeir fara mjög snemma í frí miðað við önnur lönd. Ef hann væri í Þýskalandi hefði hann örugglega náð einhverjum leikjum og það er auðvitað eitthvað sem við verðum að hafa í huga,” sagði Snorri Steinn aðspurður út í Janus Daða Smárason.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.