Kom mér svolítið á óvart að Valur hafi samþykkt kauptilboðið
Sævar Jónasson)

Viktor Sigurðsson (Sævar Jónasson)

Viktor Sigurðsson hefur gengið í raðir Íslands- og bikarmeistara Fram eftir að hafa verið keyptu af félaginu frá Val. Tilkynnt var um vistaskipti Viktors til Fram í gærkvöldi.

Viktor var á sínu þriðja tímabili hjá Val eftir að hafa gengið í raðir félagsins frá ÍR. Viktor gerði tveggja ára samning við Fram með möguleika á eins árs framlengingu.

Viktor segist sjá fram á að vera í stóru hlutverki bæði varnar og sóknarlega hjá Fram.

,,Mér líst mjög vel á framhaldið. Þetta er lið með marga góða unga leikmenn í bland við eldri reynslumeiri menn með frábært þjálfarateymi. Þeir náðu mjög góðum árangri í fyrra sem við náum vonandi að byggja ofan á,” sagði Viktor í samtali við Handkastið fyrr í dag.

Viktor viðurkennir að það hafi komið honum á óvart að Valsarar hafi samþykkt kauptilboð Fram í sig.

,,Aðdragandinn var frekar stuttur ég heyrði fyrst af þessum möguleika um helgina og svo gekk þetta hratt fyrir sig eftir það. Það kom mér svolítið á óvart að Valur hafi samþykkt kauptilboðið þar sem ég hafði heyrt að þeir væru búnir að neita nokkrum fyrirspurnum alveg frá því í sumar.”

Viktor segist hafa tekið mjög vel í þær fréttir er honum var tilkynnt af kauptilboði Fram í sig. 

,,Ég tók því bara mjög vel. Það er mikið stolt að félag eins og Fram sé tilbúið að borga mig útúr samning, sem sýnir kannski metnaðinn og trúnna sem þeir hafa á mér.”

,,Mér leið mjög vel í Val og verð ævinlega þakklátur fyrir tímann minn þar, þetta var mjög erfið ákvörðun. Hins vegar þróaðist byrjunin á tímabilinu aðeins öðruvísi en ég vonaðist eftir og ég sá meiri tækifæri fyrir mig hjá Fram og því ákvað ég á endanum að skrifa undir,” sagði Viktor en fyrsti leikur hans fyrir Fram verður í Kórnum á laugardaginn þegar HK og Fram mætast í 8.umferð Olís-deildarinnar.

Í kvöld tekur Fram á móti Elverum í 2.umferð Evrópudeildarinnar klukkan 18:45. Viktor Sigurðsson verður ekki löglegur með Fram í þeim leik. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Livey.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top