Tryggvi Þórisson (Elverum)
Tryggvi Þórisson er mættur aftur til Íslands annað árið í röð með sínu liði í Evrópudeildinni en norska félagið Elverum mætir Fram í 2.umferð Evrópudeildarinnar í Úlfarsárdalnum í kvöld. Tryggvi Þórisson gekk í raðir Elverum frá sænska félaginu Savehof í sumar en Tryggvi kom einnig hingað til lands með Savehof í fyrra þegar liðið mætti FH í Kaplakrika. FH vann Savehof með fjórum mörkum 34-30 í Kaplakrika í fyrra en nú er Tryggvi mættur aftur til Íslands til að etja kappi við Íslands- og bikarmeistara Fram. Nú er stóra spurningin hvort Tryggvi geti fagnað sigri með sínum félögum í kvöld en leikurinn hefst klukkan 18:45 og er sýndur í beinni á Livey. Tryggvi er að koma til baka eftir erfið veikindi og því spurning í hversu stóru hlutverki hann verður í leiknum í kvöld en hann komst ekki á blað í Kaplakrika í fyrra með Savehof.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.