Þórir Ingi Þorsteinsson (J.L.Long)
Hinn ungi og þrælefnilegi örvhenti leikmaður FH, Þórir Ingi Þorsteinsson leikur ekki meira með liðinu á þessu tímabili. Þetta staðfesti Sigursteinn Arndal þjálfari FH í viðtali við Handkastið í gærkvöldi. Sigursteinn var í viðtali við Handkastið eftir sigur liðsins gegn Haukum í Kaplakrika í gær. Þar var hann spurður út í meiðslin sem Þórir Ingi hlaut í fyrri leik FH gegn Bursa Nilufer í 64-liða úrslitum Evrópubikarsins í Tyrkalandi síðustu helgi. ,,Þórir meiddist illa í fyrri leiknum úti í Tyrklandi og sleit krossbönd og fór illa í hnénu. Við erum mjög sorgmæddir yfir því. Hann hefur staðið sig gríðarlega vel í allt sumar og í byrjun tímabilsins,” sagði þjálfari FH og bætti við: ,,Ég veit að hann mun koma sterkari til baka.” Þórir Ingi hafði leyst bæði hægra horn og hægri skyttustöðu FH í upphafi móts en hann fékk smjörþefinn af Olís-deildinni á síðustu tveimur leiktíðum. Þórir Ingi sem er fæddur árið 2006 hafði skorað 16 mörk fyrir FH í fyrstu sjö leikjum liðsins í Olís-deildinni. Viðtalið við Steina Arndal má sjá hér. Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Í tilefni þess fá allir hlustendur og lesendur Handkastsins 2 fyrir 1 af öllum boozt á Hressbarnum út október. Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.