Sveinur Olafsson (Raggi Óla)
Afturelding er á toppi Olís-deildarinnar eftir átta umferðir með jafn mörg stig og Haukar. Það sem gerir árangur Aftureldingar í deildinni enn athyglisverðari er að liðið hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum í upphafi tímabils. Færeyingarnir Hallur Arason og Sveinur Olafsson hafa lítið komið við sögu á tímabilinu en ekki er gert ráð fyrir að Hallur leiki meira með liðinu á tímabilinu vegna axlarmeiðsla. Sveinur Olafsson nefbrotnaði í upphafi tímabils og sagði Stefán Árnason þjálfari Aftureldingar í samtali við Handkastið um helgina að hann vonist til að Sveinur snúi til baka í 9.umferðinni sem fer fram í næstu viku. Þá hefur Einar Baldvin Baldvinsson markvörður liðsins verið frá vegna hné meiðsla í síðustu umferðum en hann var þó í leikmannahópi liðsins í sigrinum gegn Stjörnunni í 8.umferðinni. ,,Við verðum að sjá til með Einar Baldvin. Hann fer að æfa þegar hnéð er í lagi. Hann er líklega að fara að detta inn á næstunni,” sagði Stefán í samtali við Handkastið. Í ofanálag var hægri hornamaðurinn Stefán Magni Hjartarson ekki með vegna meiðsla gegn Stjörnunni og sagði Stefán að það væri óvissa með alvarleika meiðsla Stefáns Magna.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.