Aron Dagur Pálsson ((Kristinn Steinn Traustason)
Leikstjórnandinn, Aron Dagur Pálsson leikmaður HK í Olís-deild karla vonast til að geta byrjað að æfa með sínu liði á nýjan leik í vikunni. Aron fór í aðgerð bæði á öxl og hné eftir síðustu leiktíð en nú virðist hann loks vera að koma til baka. Aron Dagur sagði í samtali við Handkastið að það styttist með hverjum deginum í að hann komi aftur inn á völlinn. ,,Þetta er allt að koma. Ég var í mælingum í síðustu viku hjá HÍ sem komu vel út. Ég fæ vonandi leyfi til að æfa með liðinu af einhverri alvöru í þessari viku en við sjáum til hvernig það þróast,” sagði Aron Dagur í samtali við Handkastið. Aron Dagur gekk í raðir HK á síðustu leiktíð eftir tvö tímabil á Hlíðarenda hjá Val. HK mætir nýliðum Selfoss á útivelli í 9.umferð Olís-deildar karla á fimmtudaginn í næstu viku en nú hefst landsliðsvika og því eru engir leikir í Olís-deild karla í þessari viku. Í kjölfarið mætir HK síðan Val, föstudaginn 14. nóvember sem gæti orðið fyrsti leikur Arons Dags á tímabilinu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.