Lilja Ágústsdóttir (Sævar Jónasson)
Lilja Ágústsdóttir vinstri hornamaður Vals er með rifinn liðþófa en hún kom við sögu í sigri liðsins á ÍBV í toppslag 6.umferðar Olís-deildar kvenna um helgina. Lilja varð fyrir því óhappi að rífa liðþófann í fyrri hálfleik í seinni leik Vals gegn hollensku meisturunum í JuRo Unirek í Valshöllinni í upphafi tímabils. Lilja sagði í samtali við Handkastið að hún sé ný farin að æfa á nýjan leik eftir meiðslin og hún ætli sér að gera allt sem í hennar valdi stendur til að komast á HM sem fram fer í Þýskalandi í lok nóvember. Lilja missti af EM á síðasta ári vegna meiðsla á ökkla. Fari svo að hún verði ekki valin í lokahóp íslenska landsliðsins fyrir HM gerir Lilja ráð fyrir að fara í aðgerð við fyrsta tækifæri. Valur mætir Selfossi í 7.umferð Olís-deildar kvenna á laugardaginn næstkomandi klukkan 14:30. Valur á eftir að spila þrjá leiki í Olís-deildinni og tvo leiki gegn þýska stórliðinu Blomberg-Lippe í forkeppni Evrópudeildarinnar áður en HM fer af stað.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.