Janus Daði Smárason (JOHAN NILSSON / TT News Agency via AFP)
Janus Daði Smárason leikmaður Pick Szeged í Ungverjalandi er staddur í Barcelona á Spáni ásamt Emblu Jónsdóttur unnustu sinni og barni. Það er nú kannski ekki frásögufærandi nema fyrir þær saki að Janus Daði var í síðasta mánuði orðaður við Barcelona. Það er spænski íþróttafréttamaðurinn, Carlos Monfort sem greinir frá á X reikningi sínum þar sem hann birtir myndskeið af Janusi Daða og fjölskyldu hans í höfuðstöðvum Barcelona. Talað var um að það væri einungis undirskriftin eftir á milli Barcelona og Janusar Daða í síðasta mánuði og nú virðist vera sem undirskriftin sé í höfn en Janus Daði sem meiddist á hné með liði sínu fyrr í mánuðinum hefur greinilega nýtt sér landsleikjafríið og skellt sér til Barcelona og klárað sín mál. RThandball greinir einnig frá því að Janus Daði hafi ferðast til Barcelona í fyrradag og hafi síðan hitt forráðamenn Barcelona í gær sem rímar við það myndskeið sem Carlos Monfort birti í gær. Janus Daði verður þar með liðsfélagi Viktors Gísla Hallgrímssonar hjá Barcelona á næsta tímabili.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.