Lasse Möller leikmaður Flensburg ((Photo by Michael Hundt / dpa Picture-Alliance via AFP)
Daikin sem hefur verið aðalstyrktaraðili þýsku úrvalsdeildarinnar hefur ákveðið að framlengja ekki samning sinn sem áframhaldandi aðalstyrktaraðili deildarinnar. Daikin sem er alþjóðlegt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Osaka í Japan sérhæfir sig í hita, loftkælingar-, lofhreinsunar- og kælikerfum. Fyrirtækið varð aðalstyrktaraðili þýsku úrvalsdeildarinnar frá og með sumrinu 2024 en úrvalsdeildin hefur heitið Daikin Handball-Bundesliga” síðustu tvö tímabil. Samningurinn var gerður til 30. júní 2026 með möguleika á framlengingu um þrjú ár. Nú hefur fyrirtækið tekið þá ákvörðun að framlengja ekki samning sinn við þýsku úrvalsdeildina. Það er Kicker.de sem segir frá. ,,Að Daikin kaupi nafnaréttindin er tímamótaáfangi fyrir Handboltadeildina; heildstæð skuldbinding framtíðar aðalstyrktaraðila okkar er einnig mjög aðlaðandi frá viðskiptalegu sjónarmiði og einstök í sögu þýska handboltans,“ sagði Uwe Schwenker, forseti HBL þegar samningurinn var undirritaður sumarið 2024. Talið er að Daikin greiði yfir fimm milljónir evra fyrir nafnaréttindin á deildinni. Um var að ræða töluvert hærri peningaupphæð heldur en fyrrum rétthafi, Liqui Moly, greiddi áður. Samkvæmt heimildum Kicker mun Daikin ekki framlengja samningi sínum við HBL sem lýkur eftir tímabilið. Þar segir jafnframt að Daikin staðfesti þær sögusagnir án þess þó að hafa viljað fara frekar í ástæður fyrir þeirri ákvörðun. ,,Fyrsta árið var farsælt og markmiðum beggja aðila var náð,“ sagði fyrirtækið. Talið er að versnandi staða fyrirtækisins og kreppu sem ríkir í Evrópu spili stórt hlutverk í ákvörðun fyrirtæksins. Framkvæmdastjóri HBL segist skilja ákvörðun Daikin og þeir líti björtum augum á framhaldið þar sem leit er hafin af nýjum styrktaraðila fyrir deildina.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.