IMG_3557 (Valur)
Arnór Snær Óskarsson er genginn í raðir Vals frá norska stórliðinu Kolstad. Valur tilkynnti þetta á samfélagsmiðlum sínum nú rétt í þessu. ,,Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að einn af okkar dáðadrengjum er kominn heim! Arnór Snæ Óskarsson þarf ekki að kynna fyrir neinum Valsara en Arnór er uppalinn í Val auk þess sem hann lék í mörg ár með meistaraflokki félagsins áður en hann hélt í atvinnumennsku," segir í tilkynningunni frá Val. Samkvæmt heimildum Handkastsins hefur samtal Ágústar Jóhannssonar við Arnór Snæ verið virkt allt frá því í sumar en Arnór Snær hefur verið í litlu hlutverki í liði Kolstad undanfarna mánuði. Arnór hefur þó ekki viljað koma heim síðustu vikur en nú hefur hann hinsvegar tekið þá ákvörðun að koma heim í Val og leika með liðinu í Olís-deildinni. Sumarið 2023 samdi Arnór Snær við þýska stórliðið Rhein-Neckar Löwen. Arnór spilaði einnig með stórliði Gummarsbach í Þýskalandi áður en hann hélt til Noregs þar sem hann spilaði með Noregsmeisturum Kolstad. Arnór hefur einnig verið valinn í íslenska landsliðið auk þess að hafa leikið með öllum yngri landsliðum Íslands. ”Ég er gríðarlega sáttur með að fá Arnór til liðs við okkur. Hann er frábær leikmaður sem og liðsfélagi. Hann á eftir að koma með mikil gæði og góða orku inn í okkar leikmannahóp. Það verður gaman að sjá hann aftur í Valstreyjunni” sagði Ágúst Jóhannsson þjálfari liðsins. Valur seldi í síðustu viku Viktor Sigurðsson til Fram.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.