Allt annað upp á teningnum í dag – Sigur á Þjóðverjum
Harry Langer / dpa Picture-Alliance via AFP)

Viggó Kristjánsson - Ísland (Harry Langer / dpa Picture-Alliance via AFP)

Það var allt annað að sjá til íslenska landsliðsins í dag gegn Þjóðverjum í seinni æfingaleik þjóðanna en þjóðirnar mættust einnig á fimmtudagskvöldið. 

Þar hafði Þýskaland betur 42-31. Það var hinsvegar allt annað upp á teningnum í dag þar sem íslensku strákarnir okkar höfðu frumkvæðið nánast allan leikinn og leiddu í hálfleik 16-15. Ísland vann að lokum tveggja marka sigur 31-29. 

Markvarslan var töluvert betri í dag en á fimmtudag en Björgvin Páll Gústavsson var óvænt í byrjunarliði Íslands í dag eftir að hafa verið utan hóps í síðasta leik. Það er líklegt hægt að segja sem svo að Björgvin Páll hafi tryggt sér sæti í EM hópnum með sinni frammistöðu og þurfi nú að fara huga að pössun fyrir sín börn í janúar.

Varnarleikurinn var töluvert betri hjá íslenska liðinu þar sem þéttleikinn var meiri sem hjálpaði markvörðunum að klukka fleiri bolta í markinu.

Sóknarleikurinn var fjölbreyttari, mörk héðan og þaðan úr uppstilltum sóknarleik og fleiri leikmenn sem lögðu í púkkinn. Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur í liði Íslands með átta mörk úr átta skotum. Gísli Þorgeir kom næstur með fimm mörk og Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk þar af þrjú úr vítum.

Ísland fékk aðeins út mark frá hægri skyttunum í opnum leik sem er áhyggjuefni auk þess sem línumennirnir okkar skutu einungis þrívegis á markið en Arnar Freyr skoraði tvö mörk í leiknum. Viggó Kristjánsson átti erfitt uppdráttar í leiknum og skoraði eitt mark úr sex skotum.

Engu að síður, frábær sigur og frábær endurkoma eftir arfa slakan leik á fimmtudaginn. Þetta gefur okkur góð fyrirheit fyrir því sem koma skal í Svíþjóð í janúar á EM 2026. Þar er leiðin greið fyrir íslenska landsliðið að fara alla leið í undanúrslit. Til þess þarf liðið hinsvegar að spila enn betur en í dag.

Handkastið gerir upp leikinn í hlaðvarpsþætti sínum í kvöld.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top