Allt annar bragur á okkur – Töluvert líkari sjálfum okkur
DANIEL KARMANN / dpa Picture-Alliance via AFP)

Snorri Steinn Guðjónsson (DANIEL KARMANN / dpa Picture-Alliance via AFP)

Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari íslenska landsliðsins var að vonum ánægður með sigur liðsins gegn Þjóðverjum fyrir framan fulla stúku í SAP Garden höllinni í Munchen í dag.

Íslenska landsliðið vann tveggja marka sigur 31-29 í seinni æfingaleik þjóðanna en Þjóðverjar unnu fyrri leikinn með ellefu mörkum 42-31.

Sjá einnig: Einkunnir Íslands í leiknum í dag

,,Fyrstu viðbrögðin er að ég er mjög ánægður. Ég er mjög ánægður með það hvernig við svörum leiknum á fimmtudaginn og það var allt annar bragur á okkur. Við vorum töluvert líkari okkur sjálfum í dag. Það var fullt sem við þurftum að glíma við en frábært svar hjá strákunum og frábær sigur og gott að svara ekki nægilega góðri frammistöðu á fimmtudaginn,” sagði Snorri sem var ánægður með sóknarleikinn í dag.

,,Við náðum að spila fleiri útfærslur af því sem við höfum verið að reyna gera að undanförnu en á sama tíma var léttara yfir þessu og betra flæði heilt yfir í leiknum.”

Snorri var verulega ósáttir eftir leikinn á fimmtudaginn með það hversu mörg mörk Þjóðverjar skoruðu úr hröðum upphlaupum. Hann sagðist hafa lagt mikla áherslu á að bæta það í leiknum í dag.

,,Það voru nokkrir grunnþættir sem ég var virkilega ánægður með. Til að mynda hlaupin til baka við vorum miklu betri í þeim þætti í dag heldur en á fimmtudaginn. Mér fannst mikilvægt að laga það frá síðasta leik,” sagði Snorri Steinn.

,,Í heildina er ég mjög ánægður með vikuna. Ég var ánægður með æfingarnar fyrir fyrri leikinn og mér fannst þær æfingar ekki gefa til kynna frammistöðuna í þeim leik. Síðan áttum við mjög góða æfingu í gær. Auðvitað þróast leikir einhvernveginn. Þú ferð inn í leikina með ákveðnar hugmyndir en maður er samt meðvitaður um það að maður getur ekki prófað allt sem maður vill prófa. En það sem ég prófaði fékk ég fullt af svörum við,” sagði Snorri og benti til að mynda á að Þorsteinn Leó hafi fengið heilan hálfleik í vinstri skyttunni og Ómar spilaði mikið á miðjunni. Hann viðurkennir að meiðslin á Hauki og Sigvalda hafi haft áhrif á að hann hafi ekki getað prófað allt sem hann ætlaði sér að prófa.

Það kom einhverjum á óvart að Björgvin Páll Gústavsson hafi byrjað í marki Íslands í dag en hann stóð sig afar vel í leiknum en hann lék fyrri hálfleikinn.

,,Þetta var alltaf planið. Ég var búinn að ákveða að ég ætlaði að skipta markvörðunum svona á milli leikjanna. Auðvitað var ekki planið að taka Viktor snemma útaf á fimmtudaginn en eins og gengur og gerist þá þarf maður stundum að gera breytingar. Það var alltaf planið að Björgvin myndi byrja leikinn í dag.”

Snorri Steinn segist ekki hafa áhyggjur af hægri skyttu stöðunni eftir þetta verkefni en Ómar Ingi og Viggó skoruðu einungis eitt mark samtals úr opnum leik í dag.

,,Ég þarf að skoða það. Mér finnst það ekki vera áhyggjuefni. Ég er rólegur yfir því. Það voru ákveðnir hlutir sem við vorum að prófa. Auðvitað koma dagar þar sem menn eiga ekki sína bestu leiki en ég hef ekki áhyggjur af því,” sagði Snorri Steinn að lokum.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top