Germany - Iceland (
Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari meistaraflokks karla í Víking og Einar Örn Jónsson íþróttafréttamaður á RÚV mættu í Handkastið til Styrmis Sigurðssonar á föstudagsmorgun til að gera upp leikinn. Þjóðirnar mætast aftur í dag í Munchen klukkan 16:30 og verður leikurinn í beinni á RÚV. Talið barst að hóp íslenska liðsins þá hafði Aðsteinn áhyggjur af því hversu lítill fjölbreytileikinn í hópnum væri. ,,Við erum allir orðnir eins, það er engin alvöru týpa og ég ætla ekki að segja að þessar týpur séu ekki til því maður hefur séð Elliða vera hund í sínum leikjum en við erum soldið þægilegir, ofboðslega teknískir og viljum leysa hlutina á ákveðinn hátt en við erum kannski ekki að skapa réttu svæðin fyrir þetta" Útilína sem byrjaði sóknarleik Íslands í leiknum var öll skipuð leikmönnum Magdeburg og sagði Aðalsteinn að það væri eðlilegt að fólk bæri þetta saman við sóknarleik þeirra en við værum því miður ekki með línumann þeirra í okkar liði. ,,Það er orðinn mikill fyrirsjáanleiki í sóknarleik okkar, við vitum að Gísli Þorgeir er að fara að koma og hann vinnur rosalega mikið til hægri eða vinstri og vinnur manninn en hann er kannski ekkert bestur í heimi að losa boltann með íslenska landsliðinu." Aðalsteinn hélt áfram og taldi okkur vera orðin eftir á í leikfræði miðað við aðrar þjóðir í Evrópu. ,,Við erum að spila annan handbolta en er verið að spila á efsta stigi á meginlandinu, 80% af sóknum íslenska landsliðsins gegn Þýskalandi var maður á mann árás og það er hending ef náum klippingu út úr því eða boltinn fljóti áfram með einhverri pressu á vörnina."

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.