Kristófer Máni Jónasson ((Baldur Þorgilsson)
Kristófer Máni Jónasson gekk til liðs við FH á dögunum frá Valsmönnum þar sem hann hafði verið hjá síðan sumarið 2024. Kristófer leikur sinn fyrsta leik með FH í kvöld þegar liðið heimsækir Aftureldingu í Mosfellsbæinn í 9.umferð Olís-deildar karla. Kristófer sagði í samtali við Handkastið að aðdragandinn að þessu hafi verið mjög stuttur. ,,FH heyrði í mér í hádeginu á föstudaginn og ég var orðinn leikmaður þeirra seinni partinn," sagði Kristófer Máni í samtali við Handkastið. Eins og fyrr sagði gekk Kristófer til liðs við Val sumarið 2024 eftir að hafa komið frá Haukum. ,,Þetta er búin að vera frábær tími hjá Val, afar skemmtilegur og lærdómsríkur." Hann sagði að þetta hefði allt saman verið gert í mesta bróðerni. ,,Staðan var bara þannig að bæði spilmínútum og hlutverk mitt í liðinu var farið að minnka." Kristófer segist vera mjög spenntur fyrir því að ganga til liðs við FH og taka slaginn með þeim í vetur. ,,Hlutverk mitt í FH-liðinu er að koma inn í ungan og skemmtilegan hóp og styrkja teymi örvhentra í liðinu og hjálpa því að ná þeim markmiðum sem það hefur sett sér." FH er í 6.sæti Olís-deildarinnar eftir átta umferðir með níu stig. Eins og fyrr segir mætir liðið Aftureldingu í kvöld sem er á toppi deildarinnar með 12 stig.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.