Arnór Snær Óskarsson (Julien Kammerer / DPPI / AFP)
Arnór Snær Óskarsson leikmaður Vals átti heldur betur draumabyrjun í endurkomu sinni í Val eftir veru sína bæði í Þýskalandi og Noregi síðustu tvö tímabil. Hann sneri óvænt til baka til Vals í síðustu viku og lék sinn fyrsta leik með liðinu á þessu tímabili í níu marka sigri á Fram í Úlfarsárdalnum í kvöld. Arnór Snær skoraði 11 mörk í 27-36 sigri Vals gegn Íslands- og bikarmeisturum Fram. Hann var í viðtali við Hörð Magnússon í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans eftir leik. ,,Tilfinngin er æðisleg. Ég var að skíta í mig fyrir leikinn að vera koma aftur og spila í deildinni en þetta var geggjað,” sagði Arnór Snær sem viðurkenndi að það hafi tekið hann smá tíma að koma sér í gang. ,,Það tók mig smá tíma að finna rythmann. Þetta var svolítið hægt í byrjun en leið og maður fann rythmann og skoraði fyrsta markið þá einhvernvegin leið manni aðeins betur. Þá var þungur fargi af manni létt.” ,,Við vorum búnir að undirbúa okkur vel gegn 7 á 6 frá Frömurunum. Það er erfitt að standa svona lengi í vörn og þurfa síðan að keyra upp í sókn, það getur oft skapað tæknifeila og vesen en mér fannst við gera þetta virkilega vel. Við vorum lengi í gang sóknarlega en síðan small þetta bæði á sama tíma, bæði vörnin og sóknin. Þetta var geggjaður leikur.” Arnór sneri til Vals frá Kolstad í Noregi þar sem hann fékk lítin sem engin tækifæri á þessu tímabili. Hörður Magnússon spurði Arnór hvort Norðmennirnir vissu bara ekkert um handbolta miðað við frammistöðu Arnórs Snæs í kvöld. ,,No comment. Mér leið vel þar og mér fannst ég bæta mig þar sem handboltaleikmann en kannski var ég ekki rétti leikmaðurinn og þá er það bara svoleiðis,” sagði Arnór Snær að lokum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.