Arnar Birkir er kominn með lið sitt í Final Four (Amo)
Í Noregi fór fram toppslagur milli Íslendingaliðanna Kolstad og Elverum en fyrir leik dagsins voru Kolstad ósigraðir á toppnum á meðan Elverum var stigi á eftir en þeir höfðu spilað einum leik meira. Gestirnir frá Elverum fóru á kostum í dag og meistararnir sáu aldrei til sólar! Gestirnir unnu að lokum átta marka sigur, 23-31. Tryggvi Þórisson komst ekki á blað fyrir gestina en fyrir heimamenn skoraði Benedikt Gunnar Óskarsson eitt mark úr tveimur skotum, Sigurjón Guðmundsson fékk lítinn möguleika í markinu og varði ekki þau tvö skot sem hann fékk á sig á meðan Sigvaldi Björn Guðjónsson var ennþá frá vegna meiðsla. Úrslitin þýða það að Elverum eru komnir á topp deildarinnar með stigi meira en Kolstad sem á þó einn leik inni. Einn annar leikur fór fram í norsku deildinni þegar Ísak Steinsson og samherjar hans í Drammen unnu góðan sigur á Nærbø á útivelli, lokatölur 25-28 fyrir Drammen. Ísak átti flottan leik í markinu en hann varði fjórtán af þeim þrjátíu og fimm skotum sem hann fékk á sig eða 40% markvarsla. Í Danmörku voru tvö Íslendingalið í eldlínunni en Skanderborg hristi af sér óvænta stór tapið gegn Nordsjælland í vikunni og unnu flottan sigur á GOG á heimavelli, 36-30. Kristján Örn Kristjánsson var sem fyrr atkvæðamikill í liði Skanderborg en hann skoraði sex mörk úr fjórtán skotum, gaf fimm stoðsendingar og var vikið af velli einu sinni. Í hinum leiknum töpuðu Ringsted á heimavelli fyrir Skjern, 21-26. Guðmundur Bragi Ástþórsson átti fínan leik fyrir heimamenn en hann skoraði fimm mörk úr sjö skotum á meðan Ísak Gústafsson skoraði eitt mark úr fjórum skotum og gaf tvær stoðsendingar. Að lokum tryggðu tvö Íslendingalið sig áfram í Final Four í sænska bikarnum en Amo kláraði einvígið sitt gegn neðri deildarliði Tyresö nokkuð örugglega, lokatölur í dag 40-34 og samtals ellefu marka sigur í einvíginu. Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fimm mörk fyrir Amo í dag. Hitt Íslendingaliðið sem tryggði sig áfram var Kristianstad en þeir unnu flottan sigur á Hammarby í Stokkhólmi í kvöld, 35-36 og unnu einvígið með fimm mörkum. Einar Bragi Aðalsteinsson átti flottan leik í liði gestanna en hann skoraði sex mörk fyrir liðið. Þetta þýðir að þrjú af fjórum liðum í undanúrslitunum eru með Íslending innanborðs en fjórða liðið verður Ystad eða Skövde sem mætast á morgun en Ystad leiðir einvígið með fimm mörkum. Úrslit dagsins: Kolstad 23-31 Elverum Nærbø 25-28 Drammen Skanderborg 36-30 GOG Ringsted 21-26 Skjern Amo 40-34 Tyresö Hammarby 35-36 Kristianstad

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.