Elín Klara hélt uppteknum hætti með Sävehof (BO AMSTRUP / Ritzau Scanpix via AFP)
Fjögur Íslendingalið áttu leik í Svíþjóð, Danmörku og Noregi í dag en við byrjum í Svíþjóð þar sem kvennalið Sävehof tók á móti Viborg í fyrri leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar. Leiknum lauk með jafntefli 31-31 í hörkuleik og því ekkert sem skilur liðin að þegar þau mætast í Danmörku um næstu helgi. Elín Klara Þorkelsdóttir var eins og svo oft áður á þessu tímabili frábær í liði heimakvenna. Hún skoraði sjö mörk úr níu skotum og var markahæst hjá Sävehof. Í norsku úrvalsdeildinni skoraði Dagur Gautason fimm mörk úr fimm skotum fyrir lið sitt Arendal sem vann góðan útisigur á Halden, 23-24. Góður sigur hjá gestunum sem fara upp í áttunda sætið sem gefur þátttöku í úrslitakeppnina í Noregi. Við endum í Danmörku en þar unnu Ribe-Esbjerg öruggan og þægilegan sigur á botnliði Grindsted, 36-24. Elvar Ásgeirsson átti flottan leik fyrir heimamenn en hann skoraði sex mörk úr átta skotum og gaf fimm stoðsendingar. Ágúst Elí Björgvinsson var ekki í leikmannahópnum að þessu sinni. Jóhannes Berg Andrason skoraði þrjú mörk úr sex skotum fyrir TTH Holstebro sem Arnór Atlason þjálfar en liðið gerði jafntefli, 36-36 í hörkuleik gegn Bjerringbro-Silkeborg á útivelli í kvöld. Úrslit dagsins: Sävehof 31-31 Viborg Halden 23-24 Arendal Ribe-Esbjerg 36-24 Grindsted Bjerringbro-Silkeborg 36-36 TTH Holstebro

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.