Aron Pálmarsson (J.Long)
FH sigraði KA í gær með þrettán marka mun 45-32 í fyrsta leik 10.umferðar í Olís-deild karla þar sem skytturnar Garðar Ingi Sindrason og Ómar Darri Sigurgeirsson fóru á kostum. Garðar skoraði 13 mörk úr sínum 13 skotum. Ómar bætti við öðrum 8 mörkum úr 11 skotum. FH-ingar voru ósáttir við sóknarleikinn á móti Aftureldingu í síðustu umferð og töluðu um það í viðtölum. Afturelding vann þann leik 25-23 eftir að FH hafi verið yfir í hálfleik. Sigursteinn Arndal sagði í viðtali við Vísi í gær að það hafa margar góðar hendur í Krikanum komið að verki í þeim málum og hann sagðist vera mjög ánægður með það. Samkvæmt heimildum Handkastsins er þar meðal annars verið að tala um Aron Pálmarsson sem var inn á æfingum FH-inga í vikunni í skóm og gallanum tilbúinn að aðstoða og leiðbeina leikmönnum FH. Það hefur greinilega skilað sér því leikmenn FH léku við hvern sinn fingur sóknarlega og voru KA-menn í stökustu vandræðum varnarlega nær allan leikinn. Aron var í sumar ráðinn inn sem sérlegur faglegur ráðgjafi við handknattleiksdeild FH.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.