Glenn Solberg (Laurent Sanson / AFP)
Samkvæmt heimildum RT Handball verður Glenn Solberg næsti þjálfari danska úrvalsdeildarfélagsins Fredericia. Guðmundur Þórður Guðmundsson var sagt upp störfum hjá danska félaginu fyrr á þessu tímabili. Aðstoðarmaður Guðmundar, Jesper Houmark tók við þjálfun liðsins þegar Guðmundur var sagt upp í september. Þar tilkynnti félagið að Houmark væri ráðinn þjálfari liðsins til skamms tíma eða þangað til félagið myndi finna arftaka Guðmundar til lengri tíma. Norðmaðurinn, Glenn Solberg þjálfaði síðast sænska landsliðið en hætti þar sumarið 2024 eftir Ólympíuleikanna í París. RT Handball segir í færslu sinni í gær að gera má ráð fyrir því að hann tæki við Fredericia snemma á næsta ári og stýri liðinu eftir EM í janúar. Glenn Solberg náði góðum árangri með sænska landsliðið. Liðið varð til að mynda Evrópumeistari 2022 og vann bronsverðlaun á EM 2024 og silfur á HM 2021. Hann var einnig aðstoðarþjálfari Fjellhammer í Noregi til ársins 2024 og þá var hann einnig aðstoðarþjálfari norska landsliðsins frá 2014-2016. Lítið hefur gengið hjá Fredericia á þessu tímabili en liðið er í 11. sæti af 14 liðum dönsku úrvalsdeildarinnar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.