Bjarni Ófeigur Valdimarsson (Egill Bjarni Friðjónsson)
Bjarni Ófeigur Valdimarsson var í sérflokki í sigri KA gegn Þór í Akureyrarslagnum í 11.umferð Olís-deildar karla á fimmtudaginn með 14 mörk þar af sjö úr vítum. Hann var með sjö stoðsendingar, níu sköpuð færi, þrjár vítasendingar, eitt fiskað víti og í öllum þessum hamagangi var hann einungis með fjóra tapaða bolta. Rætt var um leik KA og Þórs og frammistöðu Bjarna Ófeigs í nýjasta þætti Handkastsins. Þar sagðist Arnar Daði Arnarsson þáttastjórnandi Handkastsins hafa fengið spurningar sendar til sín í hálfleik í leik KA og Þór þar sem menn veltu fyrir sér hvar KA væri án Bjarna Ófeigs. ,,Svo er það það, hvað myndi gerast hjá KA ef Bjarni Ófeigur myndi meiðast í því formi sem hann er í,” sagði Kristinn Björgúlfsson sem var gestur strákanna í Handkastinu í þættinum. Arnar Daði sagðist þekkja Bjarna Ófeig vel en hann þjálfaði hann í yngri flokkum Vals á sínum tíma. ,,Meiri fagmann hef ég varla talað við sem leikur í Olís-deildinni. Að leikmaður sem hefur komið heim og haldið þessum dampi, er sjaldséð,” sagði Arnar Daði og lýsti því sem hann á við. ,,Hann mætir í hádeginu að lyfta, hann er að pæla í mataræðinu, hann er að mæla púlsinn á sér, hann er að skoða svefninn hjá sér og endurheimtina. Það er allt. Hann er að lifa eins og atvinnumaður, hann er jú að fá borgað eins og atvinnumaður en menn hafa nú alveg fengið borgað eins og atvinnumenn en samt farið að vinna á leikskóla 8-12.” ,,Mér finnst hann bara verða betri og betri með hverjum leiknum,” sagði Stymmi áður en Kiddi tók til orða. ,,Það er langt síðan einhver hefur komið heim úr atvinnumennsku og spilað svona vel.” Og í kjölfarið var nafn Daníels Þórs Ingasonar nefnt sem gekk í raðir ÍBV í sumar eftir veru sína í Þýskalandi undanfarin ár. Þar var bent á að Daníel Þór væri ekki að skila sömu tölum og Bjarni Ófeigur væri að gera leik eftir leik.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.