Þór - Afturelding (Egill Bjarni Friðjónsson)
Nýliðar Þórs eru í 10.sæti Olís-deildarinnar þegar deildin er hálfnuð með sjö stig. Jafn mörg stig og Selfoss sem eru í 11.sæti deildarinnar og fjórum stigum meira en ÍR sem er á botni deildarinnar. Það er hinsvegar stutt í úrslitakeppnina. Þór tapaði gegn KA í Akureyrarslagnum á fimmtudagskvöldið í KA-heimilinu 32-28 þar sem erlendu leikmenn Þórs þeir Nikola Radovanovic og Igor Chesiliov náðu sér ekki á strik. Nikola var með rúmlega 20% markvörslu og Igor átti tvö arfaslök skot á þeim stutta tíma sem hann lék í leiknum. Stymmi klippari var spurður að því í nýjasta þætti Handkastsins hvort hann sjái fyrir sér að Þórsarar fari á leikmannamarkaðinn í janúar og myndu reyna styrkja liðið fyrir átökin eftir áramót. ,,Ég veit ekki hvað þeir ættu að gera. Þeim vantaði leikmenn í allt sumar og eina sem þeir fengu var þessi Igor. Er þess virði að sækja einhvern bara til að sækja einhvern? Færðu eitthvað gott í janúar. Þú færð varla góðan bita í ensku úrvalsdeildinni í janúar. Þeir sem geta eitthvað eru ekki á lausu í janúar. Og það er ástæða ef þú endar á Íslandi í janúar, þá ertu sennilega ekki nægilega góður nema það sé verið að borga alvöru upphæð fyrir þig. " ,,Þeir verða að sækja útileikmann, ég held að þeir komist alveg í gegnum tímabilið með Patrek Guðna og Nikola í markinu en þeim vantar mann fyrir utan. En til að svara, já þeir þurfa að sækja sér leikmann, þeir munu mögulega reyna það en ég er ekki viss um að það sé eitthvað í boði sem er eitthvað vit í," sagði Stymmi klippari að lokum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.