Bjarni í Selvindi (Baldur Þorgilsson)
Færeyingurinn, Bjarni í Selvindi leikmaður Vals sneri til baka í leikmannahóp Vals á nýjan leik í sigri liðsins gegn ÍBV í 11.umferð Olís-deildar karla á laugardaginn. Bjarni í Selvindi kom þó ekkert við sögu í sannfærandi sigri liðsins, 34-26. Bjarni gekkst undir aðgerð á öxl um miðjan september en hann lék með Val í fyrstu tveimur umferðum deildarinnar. Hann hefur nú náð sér eftir aðgerðina en rúmlega átta vikur eru síðan hann fór í axlaraðgerðina. Valsmenn hafa verið á góðri siglingu í Olís-deildinni í undanförnum leikjum og hafa nú unnið þrjá leiki í röð afar sannfærandi. Valur tekur á móti Stjörnunni á fimmtudagskvöldið í fyrsta leik 12.umferðarinnar en Olís-deildin er hálfnuð um þessar mundir. Það má gera fastlega ráð fyrir því að Bjarni í Selvindi komi við sögu í liði Vals á fimmtudaginn og fari þá í róteringu með þeim Gunnari Róbertssyni, Degi Árna Heimissyni og Magnúsi Óla Magnússyni. Þá lék Dagur Leó Fannarsson einnig fyrir utan í sigrinum gegn ÍBV á laugardaginn. Róbert Aron Hostert er ennþá á meiðslalista Vals eftir að hafa farið í aðgerð í upphafi tímabils. Valur er í 2.sæti Olís-deildarinnar tveimur stigum á eftir Haukum sem eru á toppi deildarinnar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.