Ágúst Elí Björgvinsson (Petr David Josek / POOL / AFP)
Landsliðsmarkvörðurinn, Ágúst Elí Björgvinsson gæti verið á heimleið. Hann rifti samningi sínum við danska félagið, Ribe-Esbjerg á dögunum og hefur verið félagslaus síðustu daga. Hann segist vera skoða sig um og vera í samtali við nokkur félög bæði erlendis og hér heima. Hann gerir ráð fyrir því að taka ákvörðun um framhaldið á sínum ferli á næstu dögum. ,,Ég er að skoða mín mál bæði erlendis og heima á Íslandi. Ég hef heyrt í þónokkrum liðum og málin ættu að skýrast á næstu dögum," sagði Ágúst Elí Björgvinsson í samtali við Handkastið. Ágúst Elí var í landsliðshópi íslenska landsliðsins í síðasta verkefni er liðið mætti Þjóðverjum í tveimur æfingaleikjum. Þar lék Ágúst Elí fyrri leik liðsins ásamt Viktori Gísla Hallgrímssyni. Afar ólíklegt verður þó að teljast að Ágúst Elí verði í lokahóp Íslands á EM í janúar þar sem hann hefur lítið sem ekkert spilað á þessu tímabili og verður líklega ekki löglegur með nýju félagi fyrr en eftir EM. Það eru þó nokkur lönd sem eru með opin félagaskiptaglugga sem Ágúst Elí gæti farið í fyrir EM en það verður að teljast ólíklegt að það verði lendingin. Félög sem Ágúst Elí hefur verið orðaður við hér heima eru KA og ÍBV en Ágúst Elí er uppalinn hjá FH og hefur einungis leikið með FH hér heima. FH-ingar eru hinsvegar vel settir í markmannsstöðunni um þessar mundir með þá Daníel Frey Andrésson og Jón Þórarin Þorsteinsson.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.