Bjarni Fritzson (Sævar Jónasson)
Fyrri umferðin í Olís-deild karla lauk um helgina og var deildin því hálfnuð áður en 12.umferðin hófst í gærkvöldi. Í síðasta þætti Handkastsins var farið yfir spá Handkastsins fyrir tímabilið og skoðað stöðuna þegar deildin er hálfnuð. Þar kom það fram að Handkastið spáði ÍR-ingum 9.sæti fyrir tímabilið en liðið situr sem fastast við botninn án sigurs og með þrjú jafntefli. Það er mikið undir hjá ÍR í næstu tveimur leikjum þegar liðið mætir liðunum í 10. og 11.sæti deildarinnar, nýliðunum í Selfoss og Þór. ,,Við felldum þá um mitt haust og hættum svo við að fella þá. Hvað ætlum við að gera við þá núna?” spurði Stymmi klippari gesti þáttarins, þá Ásgeir Gunnarsson og Davíð Má Kristinsson en sá síðarnefndi byrjaði að svara. ,,ÍR eiga Þór og Selfoss í næstu tveimur leikjum, tímabilið er undir hjá þeim í þessum leikjum.” ,,Ef þeir fá ekki fjögur stig úr þeim leikjum, eru þeir þá ekki gott sem fallnir?” velti Stymmi klippari fyrir sér. ,,Ímyndið ykkur líka álagið á Bjarna. Hann er með liðið í þessari stöðu, hann er að fara í tvo úrslitaleiki og er í miðju jólabókarflóði,” bætti Davíð Már við áður en Ásgeir Gunnarsson tók til máls. ,,Ég held að það sé þannig. Þeir hafa líka ekki verið að gefa þessum toppliðum leiki. Ég er alveg sammála því að þeir þurfa þessi fjögur stig í næstu leikjum. En ef þeir ná þessum fjórum stigum þá held ég að þetta verði aðeins öðruvísi. Þá gæti þeir farið í leik gegn HK og Aftureldingu og unnið þá. En það er skrítið að segja það, en ég hef minni áhyggjur af þeim en til dæmis Þórsurum. Ég veit ekki afhverju maður hefur þá tilfinningu.” ÍR fær Þór í heimsókn í Skógarselið í lokaleik 12.umferðarinnar en leikurinn fer fram klukkan 18:30 á laugardagskvöldið. Athyglisverður leiktími.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.