Ísland U19 (IHF)
Eina hægri skytta ÍBV, Elís Þór Aðalsteinsson er eftirsóttur af fjölmörgum liðum erlendis frá. Þetta herma öruggar heimildir Handkastsins. Elís Þór sem fór mikinn í upphafi tímabils með ÍBV í Olís-deild karla var markahæsti leikmaður deildarinnar áður en hann varð fyrir því óláni að ristarbrotna á æfingu með U20 ára landsliði Íslands í október mánuði. Gert er ráð fyrir því að Elís Þór snúi aftur á völlinn eftir áramót þegar Olís-deildin fer af stað á nýjan leik í byrjun febrúar eftir EM. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Handkastsins er Elís Þór á radaranum hjá fjölmörgum félögum í Evrópu meðal annars liðum í þýsku B-deildinni og í Danmörku. Elís Þór sem er fæddur árið 2007 fékk lyklana af hægri skyttu stöðu ÍBV í sumar eftir að Portúgalinn, Daniel Vieira yfirgaf félagið. Hann þakkaði traustið og var einn besti leikmaður Olís-deildarinnar áður en hann meiddist. Það verður fróðlegt að sjá hvort Elís Þór taki það skref næsta sumar að fara út í atvinnumennskuna eða bíði rólegur og haldi trausti við uppeldisfélag sitt.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.