Dana Björg Guðmundsdóttir (THOMAS KIENZLE / AFP)
Íslenska kvennalandsliðið tapaði fyrsta leik sínum í milliriðli á HM kvenna fyrir Svartfjallalandi í dag en leiknum lauk 27-36 en eftir nokkuð fínan fyrri hálfleik hjá Íslandi hrundi leikur liðsins í byrjun síðari hálfleiks sem gerði út um möguleika liðsins að sækja stig í dag. Eins og fyrr segir var leikurinn liðsins fínn í fyrri hálfleik og munaði aðeins þremur mörkum í hálfleik, 11-14 fyrir Svartfjallaland. En eftir tíu mínútur í síðari hálfleiknum var munurinn kominn í átta mörk og þannig hélst munurinn meira og minna út leikinn. Dana Björg Guðmundsdóttir, Elín Rósa Magnúsdóttir og Þórey Anna Ásgeirsdóttir voru allar markahæstar í dag með sex mörk hvor. Sandra Erlingsdóttir og Díana Dögg Magnúsdóttir komu næstar með þrjú mörk. Hafdís Renötudóttir átti fínan fyrri hálfleik en eins og allt liðið átti hún erfitt uppdráttar í þeim seinni en hún varði fimm og endaði með 15,2% markvörslu á meðan Sara Sif Helgadóttir fékk tækifæri einnig og varði eitt skot og var með 11,1% markvörslu. Dijana Trivic og Tatjana Brnovic voru bestar í liði Svartfjallalands með sjö mörk hvor. Næsti leikur liðsins er á fimmtudagskvöldið þegar stelpurnar okkar mæta Spáni.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.