Hannes Höskuldsson (Sigurður Ástgeirsson)
Selfoss tók á móti ÍR í 13. umferð Olísdeildar karla í sannkölluðum 4 stiga botnslag. ÍR hafði unnið sinn fyrsta leik í deildinni á laugardaginn og mættu því fullir sjálfstrausts til leiks með Selfyssingar töpuðu gegn KA fyrir norðan. Það var mikið jafnræði með liðunum í upphafi leiksins en Selfoss var þó alltaf skrefi á undan og komst mest í þriggja marka forskot þegar þeir komust í 10-7. ÍR náði að vinna sig aftur inn í leikinn og var nánast jafnt á öllum tölum út fyrri hálfleikinn. Það var ÍR sem leiddi í hálfleik 17-18 með marki frá Bernard Darkoh á lokasekúndum fyrri hálfleiks. Það sama var upp á teningnum í síðari hálfleik, jafnt á nánast öllum tölum. Á 42.mínútu fékk Bjarki Steinn leikmaður ÍR rautt spjald fyrir sína þriðju brottvísun í leiknum. Lokamínútur leikins voru æsispennandi þar sem ÍR náði að jafna þegar 1 mínúta var til leiksloka. Selfoss tóku leikhlé þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum. Hendin kom upp hjá dómurum leiksins og það var Hannes Höskuldsson sem skoraði sigurmarkinn 3 sekúndum fyrir leikslok og allt varð vitlaust í stúkunni. Selfyssingar náðu að slíta sig frá ÍR með þessum sigri og sitja í 10.sæti deildarinnar meðan ÍR eru ennþá í botnsætinu. Hetja Selfyssinga í kvöld, Hannes Höskuldsson, var markahæstur með 10 mörk en hjá ÍR var Bernard Kristján Owusu Darkoh markahæstur með 11. Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.