Arnór Þór Gunnarsson - Guðmundur Guðmundsson (Anne-Christine POUJOULAT / POOL / AFP)
Arnór Þór Gunnarsson þjálfari nýliða Bergischer í þýsku úrvalsdeildinni hefur náð eftirtekarverðum árangri með liðið hingað til á tímabilinu en liðið tryggði sér í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar í síðustu viku með sigri á Melsungen sannfærandi 30-23. Liðið var síðan hársbreidd frá því að ná í stig gegn spútnik liði Lemgo í þýsku úrvalsdeildinni um helgina en þurfti að sætta sig við eins marks tap á heimavelli, 27-28 á laugardaginn. Handkastið sló á þráðinn til Þýskalands og heyrði í Arnóri Þór um bikarævintýrið en liðið mætir Magdeburg í undanúrslitum bikarsins í Final4 helgi sem fram fer í Köln á næsta ári. ,,Það eru akkúrat 10 ár síðan ég sem leikmaður og bergischer fórum í Final 4. Við höfum beðið lengi eftir þessu tækifæri aftur og nú er það loks orðið að veruleika. Það er einn leikmaður eftir í hópnum sem fór fyrir 10 árum en þá var Christopfer Rudek 20 ára gamall sem var þá einn af tveimur markmönnum liðsins ásamt Björgvini Páli Gústavssyni,” sagði Arnór Þór aðspurður út í afrekið að félagið sé komið í Final 4. ,,Þetta er búið að vera erfið leið til að komast í Final 4. Við byrjuðum á auðveldum leik við 3.deildarlið en eftir það fórum við á erfiðan útivöll og mættum Coburg sem eru ofarlega í þýsku B-deildinni. Næst unnum við Hannover-Burgdorf í tvíframlengdum leik og lok unnum við MT Melsungen sem er taktískt mjög gott lið sem er erfittt að greina og spila við.” ,,Við erum yngsta lið deildarinnar og erum spenntir og hlökkum til að mæta Magdeburg sem er besta lið í heimi í undanúrslitum fyrir framan 20 þúsund manns í Lanxess Arena í Köln. Það er ekki langt fyrir okkar stuðningsmenn að mæta til Kölnar og einungis 45 mínútna fjarlægð svo ég býst við mikilli gleði og stemningu frá okkar fólki,” sagði Arnór Þór að lokum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.