Hákon Daði Styrmisson (Photo by Swen Pförtner / dpa Picture-Alliance via AFP)
Þrír Íslendingar voru í eldlínunni í þýsku B-deildinni á öðrum degi jóla í gær. Hákon Daði Styrmisson skoraði þrjú mörk í lokaleik sínum fyrir Eintract Hagen en liðið tapaði með þremur mörkum gegn Potsdam 31-28. Eftir frábæra byrjun á tímabilinu hefur heldur betur hallað undan fæti hjá Hákoni Daða og félögum. Liðið hefur aðeins fengið tvö stig úr síðustu sex leikjum sínum í deildinni en liðið hóf tímabilið á níu sigrum í fyrstu ellefu leikjum tímabilsins. Tjörvi Týr Gíslason skoraði fjögur mörk úr fimm skotum í enn einum tapleik Oppenweiler/Backnang. Liðið er nýliði í deildinni og hafði aldrei leikið í þýsku B-deildinni fyrir tímabilið. Liðið tapaði fyrir N-Lübbecke, 39-32 á heimavelli í gær. Liðið situr á botni deildarinnar með tvö stig að loknum sautján leikjum. Viktor Petersen Norberg skoraði tvö mörk í stórsigri toppliðs Elbflorenz á Dessauer HV, 32-34. Viktor og félagar í Elbflorenz eru í efsta sæti deildarinnar með 28 stig eftir 17 leiki er stigi fyrir ofan Balingen og Bietigheim sem leika í dag. Eyjamaðurinn, Elmar Erlingsson verður í eldlínunni á morgun er Nordhorn-Lingen heimsækir Krefeld heim en Krefeld er í næst neðsta sæti deildarinnar með sex stig. Nordhorn-Lingen er í 5.sæti deildarinnar með 23 stig.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.