Ída Bjarklind Magnúsdóttir (Sigurður Ástgeirsson)
Kvennalið Selfoss hefur lent í mikilli blóðtöku. Ída Bjarklind Magnúsdóttir, vinstri skyttan í liði þeirra verður ekki meira með á tímabilinu. Meiðsli er ekki ástæðan fyrir fjarveru hennar heldur er hún ólétt af sínu fyrsta barni.
Þetta tilkynnti hún á Instagram reikningi sínum fyrir stuttu. Unnusti hennar er fyrrum handboltamaðurinn Gestur Ólafur Ingvarsson, hornamaðurinn örfhenti sem lék lengi vel með Aftureldingu á árum áður.
Ída Bjarklind er uppalin á Selfossi og er 26 ára gömul. Hún hóf meistaraflokksferil sinn á Selfossi en eftir það lék hún með Stjörnunni og svo Víking áður en hún fór aftur á Selfoss síðastliðið vor. Á þremur leiktímabilum sem hún lék með Víking var hún m.a markahæst í Grill 66 deildinni eitt árið. Öflug og hávaxin skytta sem getur leikið í báðum skyttustöðunum.
Ída var búin að spila 11 leiki með Selfoss í vetur og skoraði í þeim 28 mörk.
Handkastið óskar Ídu og Gesti til hamingju með þessar fregnir.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.