Landsliðstreyjan er til sölu (Ljósið)
Aðaltreyja íslenska landsliðsins, árituð af strákunum okkar sem taka þátt á Evrópumótinu sem hefst nú á fimmtudaginn býðst nú á uppboði til styrktar Ljósinu sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Ljósið fékk treyjuna að gjöf frá góðgerðarverkefninu Gleðjum Saman sem er í samstarfi m.a. við HSÍ. Uppboðið stendur til miðvikudagsins 21.janúar klukkan 12:00 en það er daginn eftir lokaleik Íslands í riðlakeppni Evrópumótsins gegn Ungverjalandi en hægt er að skoða uppboðið hér. ,,Við í Ljósinu bíðum spennt eftir því að fylgjast með strákunum okkar úti í Kristianstad í Svíþjóð og hlökkum til komandi leikja á Evrópumeistaramótinu,” segir í tilkynningu frá Ljósinu. Markmið Ljóssins er að fólk fái sérhæfða endurhæfingu- og stuðning, þar sem fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek, auk þess að fá stuðning við að setja sér markmið sem auka daglega virkni og hafa þannig áhrif á lífsgæði almennt. ,,Að lokum viljum við þakka Orra Rafni Sigurðarsyni, sem stendur á bakvið góðgerðarverkefnið Gleðjum saman, fyrir að láta gott af sér leiða og gefa Ljósinu þessar fallegu gjafir.”

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.